Það var laugardaginn 30. ágúst 2025 sem heill hellingur af ofurhetjum stakk sér til sunds frá Valþjófsdal í Önundarfirði og stefnan tekin þvert yfir hinn fagra Önundarfjörð. Undarleg uppákoma myndu margir halda en það er síður en svo, hún Sæunn gerði þetta með glæsibrag í október 1987 en reyndar fór hún frá Flateyri og yfir í Valþjófsdal. Hún var bæði kelfd og skelfd og barðist fyrir lífi sínu, engar björgunarsveitir og sjórinn var kaldur og hryssingslegur. En hún hafði líkt og hetjurnar þetta árið, vaska móttökusveit sem tók á móti henni og af mikilli gæsku leiddi hana í fjós hvar hún dvaldi þar til yfir lauk.

Þetta er í sjöunda sinn sem mennskir sundkappar heiðra Sæunni og þvera fjörðinn fyrir eigin vélarafli, það er reyndar ekki rétt því í fyrra var gul viðvörun og sjórinn úfinn þegar leggja átti upp frá Valþjófsdal og sundinu var því snarlega breytt í Moðhausasprett. Þetta er því sjöunda tilraunin til Sæunnarsunds og sjötta sem heppnast þó svo sannarlega hafi verið gaman að geta boðið upp á þá tilbreytingu að synda í klauffar Moðhausar.
Að þessu sinni voru það 39 ofurkappar sem lögðu af stað með góðar óskir og kapp í kinn, sumir í einföldum sundklæðnaði, aðrir gallaðir upp fyrir haus og út í fingur og tær en þar sem ekki er um að ræða keppni eru öll hjálpartæki svo sem eins og froskalappir og gallar leyfilegir en fjarri því að allir nýti sér það. En hjálpsemi er í hávegum höfð og ef þarf aðstoða næsta syndara í land, er oft einhver í nálægð sem hysjar fólk í land.

Veðrið var eins og best verður á kostið og Önundarfjörður skartaði sínu fegursta, þungur straumur gerði þó syndurum erfitt fyrir og bárust margir mikið af leið, niðurstaðan varð því sú að fæstir syntu 2,5 km eins og loftlínan segir að sé yfir fjörðinn, sumir jafnvel tvöfölduðu þá vegalengd.
Sæunnarsund er mikið verkefni og það eru margir sem leggja hönd á plóg því eins og góður maður sagði „þú gerir ekki rassgat einn“ og það á svo sannarleg við um Sæunnarsund. Fyrst og síðast verður að nefna björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum sem hafa í öllum Sæunnarsundum lagt gjörva hönd á plóg, án þeirra er ekkert Sæunnarsund. Og alltaf þarf einhverja aura og það eru margir rausnarlegir. Í ár eru það Vestfirskir Verktakar, Hampiðjan og Dokkan sem styrkja myndarlega, Snerpa vistar heimasíðuna okkur að kostnaðarlausu og Regla hefur ekki um árabil rukkað fyrir bókhaldskerfið. Þessir aðilar hafa gert okkur kleift að fjárfesta í þeim öryggisbúnaði sem þarf til og að við getum greitt björgunarsveitum fyrir þeirra hjálp. Sæunnarsundsnefndin er þessum aðilum ævinlega þakklát.
